Prjónauppskriftir Auðar standast tímans tönn

26/02 2013

Gréta Sigríður Einarsdóttir í peysu sem hún prjónaði eftir uppskrift Auðar Laxness

Eins og flestir vita bjó Halldór Laxness ekki einn á Gljúfrasteini. Kona hans, Auður Sveinsdóttir var húsfreyja á Gljúfrasteini alla tíð þar til ársins 2002 þegar hún yfirgaf húsið svo hægt væri að breyta því í safn.

Til gamans má benda á viðtal sem birtist við Auði þegar hún flutti sig um set.
Haustið 1947 fór Auður í nám í Handíða-og myndlistaskólanum í Reykjavík. Hún var áhugasöm um handverk og hönnun, stundaði Þjóðminjasafnið, tók upp munstur og nýtti þannig menningararfinn í eigin hönnun. Hún var fær handavinnukona og hafði mikinn áhuga bæði á handverki íslenskra kvenna og varðveislu og viðhaldi hins íslenska menningararfs sem fólst í handverkssögunni. Hún skrifaði greinar um þetta í Melkorku, Hug og hönd og á kvennasíðu Þjóðviljans.

Auk þess að skrifa um ofangreind mál birti Auður einnig margvíslegar uppskriftir, að prjónlesi, útsaumi og fatasaumi. Nýlega tók einn starfsmaður Gljúfrasteins sig til og prjónaði peysu eftir þriggja áratuga gamalli uppskrift frá Auði. Uppskriftina má sjá hér að neðan.

Peysa úr eingirni - Hugur og hönd, 1983

Það hefur verið mikið í tísku undanfarið að prjóna peysur á ská, þ.e frá einu horni til annars þangað til komið er ferkantað stykki. Þegar búið er að prjóna þannig framstykki og bak eru þau saumuð saman, lykkjur teknar upp að neðan og prjónaður strengur. Að ofan eru líka teknar upp lykkjur og prjónuð brugðning fyrir hálsmál og axlarstykki, saumað saman á hliðum og skilið eftir op f. ermum. Ekkert garn er eins fallegt í svona peysur og íslenskt eingirni. – Eitt svona skáprjónað stykki getur líka verið fallegt í sessuborð.

Á þeirri peysu sem hér er sýnd er byrjað á hvítum þríhyrningi þannig: fitjið upp 3 L, prj næstu umf brugðið. Aukið út á endum næsta prjóns sem er prj sl, 1 L hvoru megin. Aukið þannig um 2 lykkjur á endum hvers slétts prjóns þangað til 15 lykkjur eru á prjóninum. Þá 4 umf sauðsvart garðaprjón og haldið áfram að auka út á réttunni um 2 L (og stöðugt  annanhvern prjón þangað til 140 L eru á prjóninum), nú hvítt og slétt 8 umferðir, 2 sl um silfurvír, 10 umf milligrátt með gataröð í miðjum, (í 5. umf 7 L sl, brugðið uppá prjóninn, 2 L saman, allar lykkjur brugðnar til baka); 1 garður hvítt angóra, 12 umf dökkgrátt með perluprjóni, 4 umf sauðsvart garðaprjón, 16 umf hvítt með hnútaröð í miðju (5 L sl, þá hnútur: fitjið upp 5 L eins og heklaðar loftlykkjur í næstu lykkju en haldið henni á prjóninum, prj síðan lykkjuna og bregðið uppfitjuðu lykkjunum yfir) prj brugðið til baka. Þá silfurrönd 2 umf og 20 umf ljósast grátt. Þar eru götin hvert upp af öðru, sjötta hver lykkja og tvær umferðir á milli og mynda þannig gatarendur. Haldið svona áfram eftir smekk og tilfinningu, misjafnlega breiðar rendur með gata og hnútamunstri á víxl og rendurnar afmarkaðar ýmist með silfurgarni eða angóra og stundum með sauðsvörtum görðum.

Efni: hvítt ljósgrátt, milligrátt, dökkgrátt og sauðsvart eingirni. Hnota af silfurgarni, svolítið hvítt angora eða mohair-garn (má sleppa).

Prjónar nr 3, Hringprjónn og ermaprjónn.

Þensla: 20 L x 20 umf = 7x7 cm.

Framstykki: Prjónið fram og aftur á hringprjóninn, slétt á réttu, brugðið á röngu. Aukið út á endum hvers slétts prjóns þangað til 140 l eru á prjóninum. Prjónið þá 2 saman í byrjun og á enda annarshvers prjóns þar til 3 L eru eftir.

 

Bak prjónað eins.

Áður en stykkin eru saumuð saman eru teknar upp 88 L að neðan á hvoryu stykki og prjónaður strengur 5 cm. 1 sl, 1 br. Fellt af, ekki of fast. Teknar upp 100 L á hvoru stykki fyrir sig að ofan og prjónaðar 6-8 umf. 1 sl, 1 br.

Ermar: Prjónaðar í hring nema stúkurnar. Fitjið upp 60 L og rpj 1 sl 1 br 5 cm. Prjónið nú slétt á ermahringprjón og aukið strax í 1 umf uppí 100 L. Þá er fyrsti munsturbekkur prjónaður sem er hvítur með hnútaröð í miðju, síðan silfur, þá gatarendur í ljósasta gráu, o.s.frv. Endað er á breiðri hvítri hnútarönd. Fellt af þegar ermin er 42 cm. Hliðar á bolnum saumaðar saman og gert ráð fyrir jafnbreiðu opi og ermarnar eru. Saumað saman á öxlunum þannig að gott op sé fyrir hálsmáli; ermarnar saumaðar í og peysan pressuð léttilega á röngunni.

A.S.