ORÐSTÍR er ný heiðursviðurkenning ætluð erlendum þýðendum

10/09 2015

Þýðingar á bókum Halldórs Laxness

Í dag, fimmtudaginn 10. september, mun forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson veita þeim Catherine Eyjólfsson og Erik Skyum-Nielsen heiðursviðurkenninguna ORÐSTÍR. Athöfnin fer fram á Bessastöðum og hefst hún klukkan 17:00 í tengslum við Bókmenntahátíð í Reykjavík.

Viðurkenningin er veitt annað hvert ár, einum eða tveimur einstaklingum sem hafa þýtt verk úr íslensku á annað mál með vönduðum hætti. Með heiðursviðurkenningunni er vakin athygli á ómetanlegu starfi þýðenda og einnig sem þakklætisvottur og hvatning til þýðendanna sem hljóta viðurkenninguna.

Íslenskar bókmenntir hafa sótt í sig veðrið erlendis undanfarin ár og áratugi. Hlutverk þýðanda skiptir því miklu máli. Catherine Eyjólfsson hefur þýtt yfir 40 íslensk verk yfir á frönsku. Íslensk fornrit og rit Halldórs Laxness ruddu sér til rúms í Frakklandi á tuttugustu öldinni og frá aldamótum hefur þýðingum á íslenskum samtímaskáldskap fjölgað og þær vakið verðskuldaða athygli. Það er ekki síst Catherine Eyjólfsson að þakka. Hún flutti til Íslands árið 1972, var lengi fröskukennari  en snéri sér svo að þýðingum á tíunda áratugnum. Hún hefur meðal annars þýtt skjáldsögur og ljóð eftir fremstu núlifandi skáld þjóðarinnar.

Erik Skyum-Nielsen hefur undanfarin 40 ár verið ötull og áhrifaríkur sendiherra íslenskra bókmennta í Danmörku. Hann hefur þýtt yfir 40 íslensk verk á dönsku m.a. fornsögur, eddukvæði, ljóð skáldsögur og leikrit.

Sjá nánar á hemasíðu  Miðstöðvar íslenskra bókmennta.