Nóbelsverðlaun Halldórs Laxness 60 ára í dag

10/12 2015

Halldór situr meðal íslenskra kvenstúdenta í Stokkhólmi árið 1955.

Í dag 10. desember eru liðin 60 ár frá því að Halldór Laxness veitti Nóbelsverðlaununum viðtöku. Verðlaunin hlaut hann fyrir litríkan sagnaskáldskap, sem endurnýjað hefði stórbrotna íslenska frásagnarlist. Næstu daga var nafn Halldórs Laxness á forsíðum heimsblaðanna og fögnuðu ýmsir því að dómnefndin skyldi hafa verðlaunað höfund sem enn væri í fullu fjöri. Í mörg ár hafði nafn Halldórs verið nefnt í sambandi við verðlaunin og því kom það ekki svo mjög á óvart að hann skyldi hljóta þau árið 1955.

Til að minnast þessara tímamóta munu Gljúfrasteinn og Raddir – samtök um vandaðan upplestur og framsögn færa skólabörnum og framtíðinni gjöf. Dagskrána „Þegar lífið knýr dyra – um börn á þröskuldi fullorðinsára í verkum Halldórs Laxness“.

„Þegar lífið knýr dyra“ er dagskrá sem Baldur Sigurðsson og Ingibjörg Einarsdóttir tóku upphaflega saman 2002 en hefur nú verið endurskoðuð og gefin út á netinu. Baldur Sigurðsson sá um endurskoðun dagskrárinnar. Henni er ætlað að gefa áheyrendum hugmynd um hvaða hlutverk börn leika í verkum Halldórs, hvaða hugmyndir hann hafði um börn og fullorðna, skóla og uppeldi. Hér er um að ræða brot úr ýmsum verkum, bæði skáldsögum og ritgerðum auk ljóða, sem auðvelt er að setja upp og flytja sem heildstæða dagskrá. Við samantektina var fyrst og fremst haft í huga að dagskráin hentaði ungum flytjendum, á mörkum bernsku og unglingsára, og höfðaði til ungra áheyrenda.

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur og formaður Rithöfundasambands Íslands mun afhenda börnum landsins gjöfina í Varmárskóla í Mosfellsbæ í dag. Við það tækifæri munu nemendur skólans syngja og flytja texta Halldórs Laxness og Baldur Sigurðsson dósent flytja erindi um texta Halldórs Laxness sem valdir voru í heftið ,,Þegar lífið knýr dyra“.   

Nú stendur yfir  sýning um Nóbelsverðlaunin sem opnuð var í Þjóðarbókhlöðunni 27. október síðastliðinn, þegar 60 ár voru liðin frá því að Halldóri var tilkynnt um verðlaunin. Sýningin er í samstarfi Gljúfrasteins – húss skáldsins, RÚV og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og stendur fram í mars á næsta ári. Á sýningunni gefur að líta margvísleg skjöl úr skjalasafni Halldórs Laxness sem varðveitt er í Þjóðarbókhlöðunni, muni frá Gljúfrasteini og Nóbelsverðlaunin sjálf sem eru í vörslu Seðlabanka Íslands.

Þá hefur RÚV unnið sérstakan vef sem tileinkaður er Nóbelsverðlaunum Halldórs Laxness. Á vefnum má finna myndskeið og margvíslegan fróðleik um skáldið.