Námskeið um uppruna og sögu íslensku lopapeysunnar

16/09 2015

Theódóra Þórðardóttir ásamt annarri sýningarstúlku sýna handprjónaðar lopapeysur fyrir G. Bergmann heildsala árið 1961.

Haustið 2014 hófst rannsókn á uppruna, hönnun og þróun íslensku lopapeysunnar en verkefnið var samstarfsverkefni þriggja safna; Gljúfrasteins – húss skáldsins, Hönnunarsafns Íslands og Heimilisiðnaðarsafnsins á Blöndudósi. Rannsóknin var unnin af Ásdísi Jóelsdóttur lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Ásdís verður með námskeið hjá Endurmenntun Háskóla Íslands þriðjudaginn 29. september og 6. október. Á námskeiðinu er rýnt í niðurstöður rannsóknarinnar.
Lopapeysan er hluti af hönnunar-, iðnaðar- og útflutningssögu þjóðarinnar og hefur þannig marga snertifleti. Á myndrænan hátt verða skoðaðir hinir fjölmörgu áhrifavaldar sem átt hafa þátt í mótun og tilvist hennar sem mikilvæg þjóðararfleifð.

Nánari upplýsingar um námskeiðið er að finna á heimasíðu Endurmenntunar Háskóla Íslands.