Litadýrð í Reykjavík

12/07 2010

Listaverk eftir Svavar Guðnason

Fjöldi málverka eftir marga af þekktustu málurum landsins prýðir veggina á Gljúfrasteini. Auður keypti fyrstu myndina í húsið sama ár og þau fluttu inn, vatnslitamynd eftir Svavar Guðnason. Á Gljúfrasteini eru myndir aftir Svavar Guðnason, Louisu Matthíasdóttur, Nínu Tryggvadóttur, Jóhannes Kjarval, Karl Kvaran, Kristján Davíðsson, Barböru Árnason og Erró.

List og listsköpun var þungamiðjan í hinu daglega lífi á Gljúfrasteini. Listaverk voru ekki hengd upp til að vekja aðdáun gesta, heldur þjónuðu þau því hlutverki að vera íbúum hússins til ánægju og hugljómunar. Listaverk voru ekki hengd upp til að vekja aðdáun gesta, heldur þjónuðu þau því hlutverki að vera íbúum hússins til ánægju og hugljómunar.

Nú stendur yfir í Listasafni ASÍ sýning á verkum úr safnaeign þeirra, þar á meðal fjöldi verka eftir listamenn sem voru í vinahóp Halldórs og Auðar. Listaverkin eru valin á sýninguna með tilliti til þess tjáningarkrafts sem býr í litameðferð listamanna sem annars virðast eiga fátt sameiginlegt hvað varðar t.d. efnistök og aldur. Á sýningunni eru verk eftir listamennina Svavar Guðnason, Þóru Sigurðardóttur, Jóhannes S. Kjarval, Nínu Tryggvadóttur, Ásgrím Jónsson, Jóhannes Jóhannesson, Hörð Ágústsson, Gunnar Örn Gunnarsson, Jóhann Briem, Vigni Jóhannsson, Kristján Davíðsson, Jóhann Briem, Sigrid Valtingojer og Jón Stefánsson. Mörg þessara verka hafa ekki verið sýnd opinberlega í mörg ár. Einnig má sjá teikningar og önnur verk unnin á pappír eftir Svavar Guðnason en það er hluti af gjöf til safnsins úr dánarbúi Ástu Eiríksdóttur. Sýningin stendur yfir til 29. ágúst næstkomandi.