Klarínettu- og píanóleikur á íslenska safnadaginn

07/07 2010

Matthías I. Sigurðsson og María Arnardóttir, klarínetta og píanó

Sunnudaginn 11. júlí er íslenski safnadagurinn. Í tilefni dagsins er frír aðgangur að safninu og einnig á stofutónleikana sem hefjast stundvíslega klukkan 16. María Arnardóttir píanóleikari og Matthías Sigurðsson klarínettuleikari leika verk eftir Debussy, Finzi, Stravinsky og Þorkel Sigurbjörnsson.

María og Matthías eru nýútskrifuð úr Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem þau lærðu klassíska tónlist. Þau hafa spilað saman víða, meðal annars á tveimur tónleikum í Tékklandi, á 17. júní tónleikum í Ráðhúsi Reykjavíkur auk þess að hafa haldið minni uppákomur eins og tónleika í versluninni Sævari Karli og skemmtilegan listgjörning þar sem María spilaði á melódikku. Þetta sumar urðu þau þess heiðurs aðnjótandi að fá að starfa sem einn af Listhópum Hins Hússins, þar sem þau leika létta sumartónlist auk klassískar tónlistar og lífga upp á borgina. Bæði hafa þau reynslu á öðrum sviðum tónlistar og má þar nefna að María hefur lært jazz og Matthías búlgarska þjóðlagatónlist.

Stofutónleikar Gljúfrasteins verða alla sunnudaga í sumar kl.16.

Gljúfrasteinn er opinn alla daga í sumar frá kl. 9–17.

Á Íslenska safnadaginn er ýmislegt um að vera á söfnum víðsvegar um landið. Markmiðið með deginum er að benda á mikilvægi faglegrar varðveislu og miðlunar sameiginlegra verðmæta þjóðarinnar og þá einstöku leið til lifandi þekkingaröflunar og skemmtunar sem finna má á söfnum. Þennan sama dag verða safnaverðlaunin afhent á Bessastöðum.

Eftirtalin söfn eru tilnefnd til Safnaverðlaunanna 2010: Byggðasafn Skagfirðinga, Heimilisiðnaðarsafnið á Blönduósi og Nýlistasafnið í Reykjavík.