Jónas Hallgrímsson og Shakespeare á Gljúfrasteini

03/08 2010

Signý Sæmundsdóttir og Þórarinn Sigurbergsson, söngur og gítar

Sunnudaginn 8. ágúst næstkomandi klukkan 16 munu Signý Sæmundsdóttir og Þórarinn Sigurbergsson flytja sonnettur eftir Shakespeare við lög Oliver Kentish og ljóð eftir Jónas Hallgrímsson við lög Atla Heimis Sveinssonar.

Signý stundaði söng og tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og Söngskólann í Reykjavík og síðan framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Vín í Austurríki þaðan sem hún lauk námi 1988. Þar lagði hún jöfnum höndum stund á óperu-, ljóða- og kirkjutónlist.

Signý hefur skapað sé sess í íslensku tónlistarlífi og hefur hún tekið þátt í óperuuppfærslum Íslensku óperunnar og Þjóðleikhússins. Hún hefur tekið þátt í frumflutningi á íslenskri samtíma og óperutónlist, svo sem Tunglskinseyjunni eftir Atla Heimi Sveinsson í Peking árið 1997. Signý hefur einnig sungið með Sinfoníuhljómsveit Íslands , Kammersveit Reykjavíkur og haldið fjölda einsöngstónleika . Hún hefur einnig verið gestur á fjölmörgum tónlistarhátíðum hérlendis og erlendis.

Þórarinn Sigurbergsson gítarleikari lærði við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar hjá Eyþóri Þorlákssyni og útskrifaðist þaðan 1980. Hann stundaði framhaldsnám hjá José Luis González á Spáni frá 1980 til 1984. Einnig hefur hann sótt tíma hjá Manuel Barrueco. Þórarinn hefur komið fram á einleiks- og samspilstónleikum, meðal annars með Kammersveit Reykjavíkur. Árið 2000 var hann einn af dómendum í alþjóðlegu Alhambra gítarkeppninni í Alcoy á Spáni.

Aðgangseyrir er 1.000 krónur og allir velkomnir.

Stofutónleikar Gljúfrasteins eru alla sunnudaga kl. 16.00 í sumar.

Við viljum vekja athygli á að Mos-Bus ekur ókeypis um Mosfellsbæ í sumar. Ferðamannastrætóinn keyrir um götur bæjarins alla daga vikunnar og stoppar á öllum helstu áfangastöðum hans. Gljúfrasteinn er að sjálfsögðu einn af þeim stöðum. Með þessu er verið að bjóða þægilegan og einfaldan möguleika fyrir Íslendinga jafnt og útlendinga til þess að upplifa allt það helsta sem bærinn hefur upp á að bjóða.