Jón Ólafsson flytur lög sín við íslensk ljóð

16/06 2014

Jón Ólafsson Píanóleikari

Jón Ólafsson tónlistarmaður leikur á píanó og syngur lög sín við íslensk ljóð sunnudaginn 22. júní. Meðal þeirra höfunda sem Jón hefur samið lög við ljóð eftir eru þeir  Halldór Laxness, Jónas Guðlaugsson, Stefán Máni og Hallgrímur Helgason.

Jón Ólafsson hefur verið í framlínu íslenskrar tónlistar um langa hríð og verið mikilvirkur bæði sem höfundur, flytjandi og upptökustjóri ýmissa listamanna. Sem lagahöfundur hefur hann verið farsæll og flestir ættu að kannast við lög hans eins og Alelda, Horfðu til himins, Líf og Sunnudagsmorgunn. Hann hefur gefið út tvær sólóplötur og er einn meðlima hljómsveitarinnar Nýdönsk sem hefur starfað við miklar vinsældir allt frá árinu 1987. Jón stjórnaði sjónvarpsþáttunum Af fingrum fram hjá RUV í þrjá vetur og hlaut Edduverðlaun strax á fyrsta vetri.

Nokkuð langt er um liðið síðan Jón Ólafsson kom síðast fram einn síns liðs og bíða þess eflaust margir að fá að njóta tónlistar hans og skemmtilegrar sviðsframkomu í einstöku umhverfi stofunnar heima á Gljúfrasteini.

Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir klukkan 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.