Í fótspor Halldórs Laxness – Reykjavíkurganga

27/04 2011

Laugavegur um aldamótin. Séð upp eftir neðsta hluta götunnar. Halldór Laxness fæddist á Laugavegi 32 árið 1902.

Vinafélag Gljúfrasteins býður uppá vorglaða göngu um miðbæ Reykjavíkur í fylgd Péturs Ármanssonar, arkitekts.  Pétur mun miðla fróðleik um ýmis hús þar sem Halldór hafði viðkomu um  lengri eða skemmri tíma á yngri árum. Lesin verða örstutt textabrot sem  tengjast þessum tíma í lífi hins unga manns. Sum húsanna standa enn, önnur eru horfin.

Gangan hefst við Laugarveg 32, fæðingarstað Halldórs Laxness,  laugardaginn 30. apríl kl 11:00 og endar við Vesturgötu 28, sem var  heimili hans á stríðsárunum. Allir eru velkomnir – bærinn er stór!

Þann 23. apríl 2010 var Vinafélag Gljúfrasteins stofnað. Tilgangur félagsins er að veita Gljúfrasteini stuðning og aðstoð og að efla vitund um arf Halldórs Laxness og mikilvægi hans. Vinafélagið er því ársgamalt og mun halda ársfund sinn á Gljúfrasteini sama dag.  Á því ári sem félagið hefur starfað hefur það staðið fyrir ýmsum viðburðum og lagt grunn að því hvernig það getur stutt við starfsemina á Gljúfrasteini.

Í stjórn Vinafélags Gljúfrasteins sitja Jón Sigurðsson, Guðrún Pétursdóttir, Sigrún Valbergsdóttir, Birgir D. Sveinsson og Haukur Ingvarsson.

Vinafélag Gljúfrasteins er áhugamannafélag og er öllum opið. Nánari upplýsingar má finna um vinafélagið hér.