,,Hulda! Ó Hulda!“

19/04 2019

Barn náttúrunnar árið 1977. Mynd eftir Harald Guðbergsson 

Í ár eru 100 ár liðin frá því að fyrsta skáldsaga Halldórs Laxness, Barn náttúrunnar kom út á Íslandi. Tímamótanna verður minnst með margvíslegum hætti á næstunni. 

Opnaðar verða tvær sýningar. Önnur á Gljúfrasteini með völdum textabrotum úr skáldsögunni sem hefur verið listilega komið fyrir á veggjum í móttökuhúsi safnsins. Um hönnun, undirbúning sýningarinnar og uppsetningu hennar sáu Þórunn Elísabet Sveinsdóttir, Tómas Jónsson, Helgi Skj.Friðjónsson og starfsfólk Gljúfrasteins.  
 

,Hulda! Ó Hulda! Ég hélt þú elskaðir mig!


Að vera kjur eða fara burt?
Á fæðingardegi Halldórs Laxness 23. apríl næstkomandi verður opnuð sýning í Landsbókasafni Íslands.  Sýningin ber heitið Að vera kjur eða fara burt og er samstarfsverkefni Landsbókasafnsins, Gljúfrasteins og Forlagsins. Safnaráð og Vinafélag Gljúfrasteins styrkja verkefnið. Ólafur J. Engilbertsson er hönnuður sýningarinnar. Vegleg sýningarskrá verður gefin út en í henni eru greinar eftir fræðimenn og listafólk. Þar skrifar Haukur Ingvarsson um skáldsöguna Barn náttúrunnar, Halldór Guðmundsson skrifar um barnið Halldór Laxness sem var aðeins sextán ára þegar hann skrifaði söguna. Kristín Marja Baldursdóttir fjallar um myndlist á Íslandi árið 1919, Árni Heimir Ingólfsson um tónlist þess tíma og Sjón um kvikmyndir. Auður Jónsdóttir skrifar um fjölskylduna í Laxnesi og Unnar Örn um bókaútgáfu í aldarbyrjun.  Forlagið sá um hönnun sýningarskrár.


...fjólur hlaupa aldrei sjálfkrafa saman í vönd og kasta sér síðan í læk.


Alþjóðlegt þing um Halldór Laxness
Á Bókmenntahátíðinni í Reykjavík sem hefst 24.apríl verður alþjóðlegt þing um Halldór Laxness í Veröld, húsi Vigdísar. Á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 25. apríl munu íslenskir og erlendir fyrirlesarar fjalla um Halldór Laxness og verk hans. Þingið er haldið í samvinnu við Gljúfrastein, sendiráð Noregs á Íslandi, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Fritt ord og Kulturrådet í Noregi.


Ég held að ég þekki ekkert annað en lífsgleðina.


Alþjóðleg bókmenntaverðlaun kennd við Halldór Laxness
Á þinginu verður tilkynnt hver hlýtur í fyrsta sinn Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness. Verðlaunin verða veitt alþjóðlegum þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum en fyrir það hlaut Halldór Laxness Nóbelsverðlaun árið 1955. Að verðlaununum standa auk Bókmenntahátíðar í Reykjavik; skrifstofa forsætisráðherra, menntamálaráðuneytið, Íslandsstofa, Gljúfrasteinn og Forlagið.


En þetta vesalíngs kulnaða hjarta, það áttu.


Barn náttúrunnar í áttunda sinn
Þá ætlar Forlagið að endurútgefa Barn náttúrunnar i tilefni aldarafmælisins. Það verður áttunda útgáfa bókarinnar en hún kom síðast út árið 2006. Í formála annarrar útgáfu bókarinnar árið 1964 skrifaði Halldór Laxness meðal annars:  ,,Nú er ég hef látið tilleiðast að renna augum yfir bókina í fyrsta sinni síðan ég sendi hana frá mér sextán vetra gamall, þá uppgötva ég að þetta muni vera besta bók mín, og liggja til þess þær orsakir að hún geymir óm bernskunnar. Þetta er kveðja mín til bernskudaganna.“


Ég er huldustelpa og á heima í hólunum hérna innmeð ánni ...
 

Kornungur og stál-duglegur
Halldór var sextán ára þegar hann skrifaði Barn náttúrunnar og sautján ára gamall þegar hún kom út. Í blöðum á þessum tíma var greint frá því að bókin væri eftir barnungan mann, Halldór frá Laxnesi og skömmu síðar birtust nokkrir ritdómar um bókina á Íslandi.  Jakob Jóh. Smári skrifaði um hana og skáldið unga í Skírni:

Barn náttúrunnar eftir Halldór Guðjónsson frá Laxnesi er ástarsaga, en kemur þó víðar við. Höf. er kornungur, og er því öll von til, að smíðagallar séu ærnir á verkinu, enda má margt að sögunni finna, ósamræmar sálarlífslýsingar og ósennilega atburði. En samt getur engum dulizt það, að hér er um að ræða efni í skáld, sem líklegt er til góðra afreka, er þroski vex og lífsreynsla. Höf. er létt um að skrifa, dettur margt í hug og er stál-duglegur. Nú er hann farinn til útlanda til að þroska sig og menta. Er full ástæða til að óska honum góðs gengis, og grunar mig, að hann eigi' eftir að auðga íslenzkar bókmentir að góðum skáldskap, ef.honum endist aldur og heilsa.

                                                                                                 

Það er sælt að sofna og svífa í draumalönd inn.
Dáið er alt án drauma; og dapur heimurinn.