Gripur vikunnar á Gljúfrasteini

28/04 2020

Platan sem Rudolf Serkin mun hafa gefið Halldóri Laxness eftir að hann heimsótti Gljúfrastein og lék þar á flygilinn 

Gripur vikunnar er hljómplatan Rudolf Serkin plays Brahms eða Rudolf Serkin leikur Brahms og er úr hljómplötusafni Halldórs Laxness og Auðar Laxness.  
Á fyrstu búskaparárum Halldórs og Auðar á Gljúfrasteini stóðu þau fyrir stofutónleikum þar sem fram komu margir þekktir listamenn. Rudolf Serkin hélt tónleika á Gljúfrasteini árið 1946 og í safninu má finna nokkrar áritaðar plötur hans.  Í viðtalsbókinni Á Gljúfrasteini sem kom út árið 1984 segir Auður Laxness svo frá að sunnudaginn 29. september árið 1946 hafi Adolf Busch og Rudolf Serkin haldið tónleika í stofunni á Gljúfrasteini. ,,Mig minnir að tónleikar Adolfs Busch og Rudolfs Serkin hafi verið þeir fyrstu sem haldnir voru hér í stofunni” segir Auður í bókinni. Tónleikar Busch og Serkin sem Auður minnist á voru haldnir níu mánuðir eftir að hún og Halldór fluttu inn á Gljúfrastein en það var á aðfangadag árið 1945.

Plötuna og alla gripi og muni sem eru á Gljúfrasteini má finna hér: sarpur.is en í Sarpi eru varðveittar upplýsingar um listaverk, muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætti og fleira. Á heimasíðunni segir að undanfarin ár hafi þau söfn og stofnanir, sem eru aðilar að Sarpi, skráð rúmlega eina milljón færslna í gagnasafnið sem varðveitt sé á svonefndum innri vef. Meirihluti þeirra er nú aðgengilegur sarpur.is.

Ítarlegar upplýsingar er að finna um plötuna á sarpi.is :  

Rudolf Serkin leikur verk eftir Brahms
Hlið 1
Variations and fugue on a theme by Handel, op. 24

Hlið 2
Intermezzo in B minor, op. 119, no. 1
Intermezzo in E minor, op. 119, no.2
Intermezzo in C major, op. 119, no. 3
Rhapsody in E-flat major, op. 119, no. 4

Á bakhlið umslagsins er handskrifað með rauðum penna: ,,To Halldor with admiration, friendship and love, Rudi. May 28, 1980." 
Og hér má heyra Serkin flytja Variations and fugue on a theme by Handel. 

Fyrri hluti       
Seinni hluti