Halldór Laxness sem samferðamaður evrópsku framúrstefnunnar

26/10 2011

Benedikt Hjartarson bókmenntafræðingur

„Expressíónisminn er í sjálfu sér eins gamall og listin“

Annað erindi vetrarins á vegum Bókmennta- og listfræðistofnunar Háskóla Íslands og Gljúfrasteins, verður flutt á Gljúfrasteini sunnudaginn 30. október klukkan 16. Benedikt Hjartarson, bókmenntafræðingur og aðjúnkt við Háskóla Íslands, mun fjalla um Halldór Laxness sem samferðamann evrópsku framúrstefnunnar.

Enginn höfundur hafði jafn mótandi áhrif á viðtökur evrópskra framúrstefnubókmennta hér á landi á fyrri hluta 20. aldar og Halldór Laxness. Í skrifum Laxness frá þriðja áratugnum bregður víða fyrir skírskotunum til hreyfinga eins og expressjónisma og súrrealisma og höfundurinn bregður stöðugt upp mynd af sjálfum sér sem fulltrúa nýjustu strauma í evrópsku bókmenntalífi. En til hvers skírskota hugtökin expressjónismi og súrrealismi í skrifum Laxness og til hvaða verka og hreyfinga þekkti hann í raun? Í erindinu verður leitað svara við þessum spurningum og jafnframt spurt hvort í skrifum hans megi greina íhaldssama aðlögun á fagurfræðilegum hugmyndum framúrstefnunnar, sem svipti þær pólitískri og menningarlegri róttækni sinni um leið og þær eru felldar inn í íslenskt bókmenntakerfi.

Það er ókeypis að hlýða á erindið og allir velkomnir.