Gestkvæmt á góðviðrisdegi

01/03 2018

Nemendur frumgreinadeildar Háskólans í Reykjavík 2018

Margt fólk lagði leið sína á Gljúfrastein í dag í veðri sem minnir á vorið. 

Í morgun komu nokkrir nemendur sem sækja nú námskeið í íslenskum 20. aldar bókmenntum við Háskóla Íslands og skoðuðu margmiðlunarsýningu um ævi og verk skáldsins áður en þau fengu hljóðleiðsögn um húsið.  Heimsókn þeirra lauk með fyrirlestri Jóns Karls Helgasonar, kennara þeirra í stofunni á Gljúfrasteini. 

Síðdegis komu um 60 nemendur úr frumgreinadeild Háskólans í Reykjavík og kynntu sér sögu Gljúfrasteins og verk Halldórs Laxness en nemendurnir eru um þessar mundir að lesa Sölku Völku.  Líkt og flesta daga komu einnig ferðamenn við í húsi skáldsins, að þessu sinni frá Suður Kóreu og Þýskalandi.  Þau nutu svo veðurblíðunnar með því að ganga um svæðið í kringum Gljúfrastein.

,,Þegar koma tveir góðviðrismorgnar í röð á Íslandi, þá er einsog allar áhyggjur lífsins hafi kvatt fyrir fult og alt.
Heimsljós. Kraftbirtíngarhljómur guðdómsins, 25. kafli.