Gerpla er komin út í nýrri enskri þýðingu

10/11 2016

Gerpla 1952

Gerpla er komin út í nýrri enskri þýðingu eftir Philip Roughton í útgáfu Archipelago books. Nefnist hún „Wayward Heroes“. Þetta er í fyrsta sinn sem Gerpla er þýdd beint úr íslensku yfir á ensku. Meðal annars hefur verið fjallað um bókina hjá KirkusHarpers, Strangealliances.wordpress.com, Theculturetrip.com og Popmatters.com

Gerpla var fyrst þýdd á ensku árið 1958, þá úr dönsku og árið 1960 kom út önnur ensk þýðing á Indlandi sem var heldur ekki þýdd beint úr íslensku.

Gerpla kom út á Íslandi árið 1952 og vakti mikla athygli ekki síst fyrir þær sakir að hún er nútímaskáldsaga með yfirbragð íslenskra fornbókmennta hvað varðar efni, orðnotkun og stíl. Við gerð verksins nýtti Halldór sér meðal annars Fóstbræðrasögu og þann hluta Heimskringlu Snorra Sturlusonar sem fjallar um Ólaf helga Haraldsson Noregskonung. Í Gerplu hæðist Halldór að hinni fornu hetjuhugsjón Íslendingasagna en boðskapur sögunnar beindist ekki síður að samtíma hans því að trú á vald og ofbeldi hefur löngum verið helsta bjargráð þeirra landstjórnarmanna sem ekkert óttast meira en þegna sína.