Fyrsti fyrirlestur vetrarins næsta sunnudag

Jón Karl Helgason

„Ferðafélagar“ er heiti á fyrirlestraröð Bókmennta- og listfræðistofnunar Háskóla Íslands og Gljúfrasteins í vetur. Fyrsti fyrirlesturinn verður sunnudaginn 2. október kl 16 og mun Jón Karl Helgason dósent flytja erindi sem hann nefnir „Skáldsagan Jón eftir Ernest Hemingway. Þýðingarvandi Stefáns Bjarmans og Halldórs Laxness“. Ókeypis aðgangur er á fyrirlesturinn og eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Á fimmta áratug liðinnar aldar tók Stefán Bjarman að sér að þýða skáldsögu Hemingways, For Whom the Bell Tolls, fyrir bókaforlagið Helgafell. Stefán lenti í miklum hremmingum við það verkefni og átti meðal annars í harðvítugum deilum við útgefanda verksins, Ragnar Jónsson í Smára, um hver íslenski titillinn skyldi vera. Einn ljósasti punkturinn í þýðingarvinnunni var hins vegar þegar Halldór Laxness hitti Stefán og bauðst til að lesa yfir uppkast að þýðingunni. Í fyrirlestri sínum rifjar Jón Karl upp þessa sögu og veltir vöngum yfir því hvað hún og fleiri frásagnir af Halldóri, sem einnig tengjast þýðingum, geta sagt okkur um skáldið á Gljúfrasteini og samtíma þess.

Jón Karl Helgason er dósent við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði Háskóla Íslands.

 

Þrír fyrirlestrar verða haldnir í haust í fyrirlestrarröðinni „Ferðafélagar“. Hér er haustdagskráin:

2. október: Jón Karl Helgason. „Skáldsagan Jón eftir Ernest Hemingway. Þýðingarvandi Stefáns Bjarmans og Halldórs Laxness“

30. október: Benedikt Hjartarson. „ „Jeg veit hjer um bil allt um þessa stefnu.“ Halldór Laxness og evrópsku -ismarnir“