Ferðasýningin Íslandsperlur í Perlunni 1.-2. maí

Saga og Jökull

Gljúfrasteinn tekur þátt í Íslandsperlum, ferðasýningu í Perlunni um helgina. Ásamt níu öðrum aðilum á Vesturlandi munum við kynna samstarfsverkefnið Saga og Jökull á Vesturlandi.

Saga er níu ára stelpa sem á ferðalagi hitti álfastrákinn Jökul. Saman lenda þau í ýmsum ævintýrum. Á 10 stöðum á Vesturlandi fá 6 - 12 ára krakkar sögur af ævintýrum Sögu og Jökuls í sumar. Þeim má safna í veglega möppu sem mun fást gefins á stöðunum.

Að sýningunni í Perlunni standa markaðstofur landshlutanna í ferðaþjónustu, Að sýningunni í Perlunni standa markaðstofur landshlutanna í ferðaþjónustu, Ferðaþjónusta bænda, Opinn landbúnaður og Beint frá býli.

Á sýningunni verður gestum boðið að ganga hringinn í kringum landið og fá smjörþefinn af því besta sem ferðalöngum stendur til boða í sumar.
Hvort sem þú hefur áhuga á fugla-, sela-, eða hvalaskoðun, gönguferðum um fjall eða fjöru, heimsækja söfn og sýningar, njóta menningar og lista, stunda golf, skíði eða heilsulindir, eða heimsækja blómlega bæi þá finnurðu örugglega eitthvað sem heillar þig!

Á einum stað gefst fólki tækifæri á að kynna sér fjölbreytta ferðamöguleika á Íslandi, skoða, spjalla og spyrja, bragða á íslenskum krásum og njóta fjölbreyttra uppákoma:


- fara í stuttan útreiðartúr, dást að kiðlingum, andarungum, uppstoppuðum ísbirni og hreindýri,
- fylgjast með gjósandi eldfjalli, handfjatla splunkunýtt hraun og uppgötva leyndardóma kúluskíts og óskasteina,
- skoða lítinn burstabæ, bala með skeljum og ílát með lifandi sjávardýrum,
- kynnast ævintýrum Sögu og álfastráksins Jökuls, sjá tröllshöfuð í fullri stærð, hlusta á tröllasögur og frásagnir af skessunni í hellinum, virða fyrir sér álfsnef, máta víkingaklæði og kynnast leikjum víkinga fyrr á öldum, eða ímynda sér drekann, Lagarfljótsorminn og persónur úr Hrafnkelssögu,
- taka þátt í SMS ratleik, njóta leiðsagnar um Öskjuhlíð, bæta við lengsta trefil í heimi, öðlast innsýn í framtíðina frá spákonu og njóta ýmissa tónlistaratriða.