Dísur og Diddú á síðustu stofutónleikum sumarsins

26/08 2015

Eydís Franzdóttir, Sigrún Hjálmtýsdóttir,  Bryndís Pálsdóttir, Herdís Anna Jónsdóttir og Bryndís Björgvinsdóttir

Dísurnar eru skipaðar þeim Eydísi Franzdóttur, óbó og enskt horn, Bryndísi Pálsdóttur, fiðlu, Herdísi Önnu Jónsdóttur, víólu og Bryndísi Björgvinsdóttur, selló. Dísurnar hafa starfað saman frá árinu 1997 og komið fram margsinnis á tónleikum bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni. Þær hafa meðal annars leikið á Háskólatónleikum, Poulenc-hátíð í Iðnó, Myrkum músíkdögum í Hörpu og 15:15 tónleikum í Borgarleikhúsinu og Norræna húsinu.

Á verkaskrá Dísanna eru flest þeirra verka sem skrifuð hafa verið fyrir þessa hljóðfæraskipan, en auk þess hafa þær frumflutt ný íslensk verk, sem sum hver hafa verið samin sérstaklega fyrir þær. Á stofutónleikunum verður fluttur óbókvartett Mozarts og stef úr Fellini-myndum eftir Nino Rota í útsetningu Jóhanns G. Jóhannssonar.

„Leynigestur“ á tónleikunum verður enginn annar en söngbóndinn í Túnfæti, Sigrún Hjálmtýsdóttir. Hún mun flytja tvö sönglög eftir Jóhann G. Jóhannsson við ljóð Halldórs Laxness, annars vegar Atlantshafið og hins vegar Bráðum kemur betri tíð.

Stofutónleikarnir eru haldnir hvern sunnudag frá 1. júní til 31. ágúst og hefjast þeir kl. 16:00. Miðaverð er 1500 krónur.