Dillandi latíntaktur, töfrabörn og Regnbogans stræti í stofunni á Gljúfrasteini í júní

Tónlistarfólkið sem verður í stofunni á Gljúfrasteini í júní 

Það verður falleg og fjölbreytt dagskrá á stofutónleikum sumarsins á Gljúfrasteini í allt sumar. Bubbi hélt fyrstu tónleika sumarsins, 2. júní og spilaði fyrir fullu húsi, lög af væntanlegri plötu sinni, Regnbogans stræti ásamt því að taka vel valin eldri lög. Sunnudaginn 9. júní spila Nicola Lolli, konsertmeistari Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Bjarni Frímann Bjarnason, aðstoðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, verk eftir Stravinsky og Schumann fyrir fiðlu og píanó. Viku síðar eða sunnudaginn 16.júní koma Gunnar Gunnarsson og Tómas R. Einarsson á Gljúfrastein og ætla að bregða fyrir sig norrænum vísum, klassískri djasssveiflu og dillandi latíntakti. 23. júní er komið að Ragnheiði Gröndal. Hún og Guðmundur Pétursson, gítarleikari ætla þá að spila ýmis lög frá ferli Ragnheiðar auk laga af nýjustu plötu hennar, Töfrabörn. Síðasta dag júnímánaðar, 30.júní ætlar GDRN að syngja eigin lög í sérsniðnum útgáfum fyrir stofu skáldsins. 

,, ...þó hefur ekki komið sá dagur yfir mig að ég efaðist um yfirburði tónlistar yfir bókmenntir í því að tjá þá opinberun sem mannshugurinn hefur af alheiminum.  
     Ég heyri sjaldan svo vonda tónlist að hún segi mér ekki meira en talað orð."   - 
Halldór Laxness í viðtali í Ríkisútvarpinu árið 1965.

Hér má nálgast dagskrá stofutónleikanna á Gljúfrasteini sem verða á sunnudögum í allt sumar eða til og með 25. ágúst.