Dagur íslenskrar tungu

16/11 2010

Halldór Laxness í vinnustofu sinni á Gljúfrasteini.

Dagur íslenskrar tungu er haldinn hátíðlegur í dag, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, 16. nóvember. Í tilefni dagsins er ókeypis að Gljúfrasteini.

Halldór Laxness átti það til að nota skrýtin og skemmtileg orð í textum sínum. Hér fyrir neðan eru þrjú orð úr greinum skáldsins og skýringar á þeim.

pexnáttúra

Skapbrestir þessarar kæru þjóðar virðast einatt vera helsti erfiðir til þess að hún fái haldið hér uppi lögríki og siðuðu mannfélagi svo í lagi sé. Í blöðunum hérna sjást dögum oftar merki þess hve pexnáttúran er ofarlega í þessu fólki, einkum útaf titlíngaskít. Oft er vígahugur í mönnum og seint virðist tilamunda séð fyrir endann á þeim stælum sem þessar háttvirtu mömmur okkar á Alþíngi hafa uppi um hvort við megum fá okkur glas af bjór...

Seiseijú, mikil ósköp. „Nýtt setumannaævintýri“. 1977

apaspil; glenniverk

...get ég ekki stilt mig um að ítreka að raflýsíng sveitanna án samfærslu bygðanna er svo glórulaus fjarstæða og barnaskapur, að eingum hefur getað dottið í hug að bera slíkt fram nema einhverjum apaspilum úr afturhaldsflokkinum hér. Ber auðvitað ekki að skoða slíka vitleysu öðruvísi en hégómlegt glenniverk framaní kjósendur.

Af menníngarástandi. „Samyrkjabygðir“. 1930

 

Orðskýringar

pexnáttúra

pexnáttúra: no.kvk þrætugjarnt eðlisfar

pex: no.hk. þræta, deila, jag, nöldur. Sjá einnig að pexa (að þrátta, að jagast); pexinn (þrætugjarn). Orðið er frá átjándu öld en uppruni þess er óljós og engin samsvörun finnst í grannmálum okkar. Líklegt er að x sé ekki upphaflegt heldur orðið til úr ks eða gs. Hugsanlega skylt færeyska orðinu pjaka/pjáka sem merkir að bjástra eða baksa við.

náttúra: no.kvk ytri heimur EÐA eðli, eðlisfar EÐA æxlunarfýsn. Orðið kemur úr latínu, frá orðinu natura sem merkir fæðing eða meðfætt eðli og er leitt af sagnorðinu nascor sem merkir að fæðast eða verða til.

 

apaspil

apaspil: no.hk fífl EÐA flónslæti, ólíkindalæti. Orðið api no.kk er gamalt farandorð og tæpast af indóevrópskum uppruna, en hefur líklegast borist inn í norræn mál úr fornensku eða fornsaxnesku. Orðið spil no.hk er frá fimmtándu öld og er af óvissum uppruna, en upphafleg merking þess virðist helst vera snögg eða iðandi hreyfing.

glenniverk

glenniverk: no.hk það að halda dyrum eða gluggum lengi opnum EÐA að glenna sig EÐA gleiðgosi, gaprildi, gála, sá sem er sífellt að glenna sig í framan. Upphafleg merking orðsins glenna no.kvk er rifa, klof, skýjarof EÐA andlitsfettur, brella, grikkur. Sagnorðið að glenna merkir að opna, teygja í sundur EÐA skæla sig, að ybba sig.