Brustad og Brahms á Gljúfrasteini

13/07 2010

Gunnhildur Daðadóttir, fiðla, og Guðríður St. Sigurðardóttir, píanó

Gunnhildur Daðadóttir og Guðríður St. Sigurðardóttir spila á fiðlu og píanó á stofutónleikum Gljúfrasteins sunnudaginn 18. júlí klukkan 16. Á efnisskránni eru Ævintýrasvíta Bjarne Brustads og Sónata fyrir fiðlu og píanó í G-dúr op 87 eftir Johannes Brahms.

Gunnhildur Daðadóttir lauk B.Mus. prófi frá Listaháskóla Íslands árið 2006. Sama vor hlaut hún þann heiður að fá að leika einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands að undanfarinni samkeppni á vegum LHÍ og SÍ. Að loknu námi á Íslandi stundaði Gunnhildur nám við Lahti háskóla í Finnlandi og í maí síðastliðnum lauk hún meistaranámi frá Illinois háskóla þar sem Sigurbjörn Bernharðsson var aðalkennari hennar. Í haust mun hún hefja diplómanám í fiðluleik við Michigan háskóla undir handleiðslu Prof. Aaron Berofsky.

Gunnhildur hefur verið meðlimur í Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur, Strengjakvartettinum Loka og Melakvartettinum. Auk þess var Gunnhildur sigurvegari í Paul Rolland fiðlukeppninni í Illinois 2007 og hefur hlotið Thor Thors styrk og Fulbright styrk. Gunnhildur er nýliði í Hjálparsveit Skáta Kópavogi.

Guðríður St. Sigurðardóttir útskrifaðist með einleikarapróf frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1978. Hún stundaði framhaldsnám við háskólann í Michigan í Ann Arbor og lauk þaðan meistaraprófi í píanóleik árið 1980. Sama ár hlaut hún fyrstu verðlaun í píanókeppni á vegum Ann Arbor Society of Musical Arts. Árið 1984 - 1985 sótti Guðríður einkatíma í píanóleik hjá Günter Ludwig, prófessor við Tónlistarháskólann í Köln. Auk þess hefur hún tekið þátt í fjölmörgum námskeiðum m.a. hjá Einar Steen-Nökleberg, Pierre Sancan, John Browning, Dalton Baldwin og Erik Werba.

Guðríður hefur víða komið fram, ýmist sem einleikari eða með öðrum tónlistarmönnum, bæði hljóðfæraleikurum og söngvurum, hér á landi sem erlendis, en hún hefur leikið í Kanada, Bandaríkjunum, Þýskalandi, Sviss og á öllum Norðurlöndunum. Jafnframt tónleikahaldi stundar Guðríður píanókennslu og meðleik með söngnemendum og starfar í undirbúningsnefnd fyrir Nordic-Baltic kórahátíðina sem haldin verður í Reykjavík í ágúst 2010.

Stofutónleikar Gljúfrasteins verða alla sunnudaga í sumar kl.16.

Gljúfrasteinn er opinn alla daga í sumar frá kl. 9–17.

Aðgangseyrir er 1.000 krónur og allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.