Bókmennta- og heilsuátakið Laxness 119 hófst í gær

09/02 2021

Hópur fólks á Íslandi, í Frakklandi, Finnlandi, Sviss, Austurríki og víðar tekur nú þátt í bókmennta-og heilsuátakinu Laxness119 sem stendur yfir frá 8. febrúar sem var dánardagur Halldórs Laxness til 23. apríl sem var fæðingardagur skáldsins en í ár eru liðin 119 ár frá því að hann fæddist. Fólkið sem tekur þátt í átakinu er hvatt til að lesa eina eða fleiri skáldsögur eftir Halldór Laxness á tímabilinu. Einnig er fólk hvatt til að stunda þá hreyfingu sem hentar því best. Sumir hyggjast ganga, skokka, hlaupa eða hjóla 119 kílómetra á tímabilinu 8. febrúar til 23. apríl sem er lokadagur átaksins, meðan aðrir ætla til dæmis að sippa 119 sinnum. 
Það voru íslenskukennarar við nokkra erlenda háskóla sem fengu þessa hugmynd og hafa hvatt nemendur sína til að taka þátt í átakinu og skrá sig í hópinn Laxness119 á Facebook. Þar er hægt að greina frá afrekum sínum. Nú þegar hafa nokkrir birt myndir af sér við lestur á bókum Halldórs bæði utan- og innandyra. Einn sem býr í Helsinki segir frá því að hann ætli að ganga 119 götur í Helsinki og lesa að minnsta kosti eina skáldsögu eftir Halldór Laxness. Annar greinir frá því á Facebook að hann hafi gengið 2,5 kílómetra í gær og farið svo í heitan pott í Vesturbæjarlauginni í Reykjavík og að hann ætli að byrja að lesa Alþýðubókina síðar í vikunni. Lektor við háskóla í Sviss birtir myndband þar sem hún sippar og spyr hvort einhver muni eftir persónu í skáldsögum Halldórs Laxness sem hafi sippað.  Önnur kona hefur komið sér fyrir við bakka Dónár þar sem hún upplýsir að hún ætli að lesa Sjálfstætt fólk.

Hér má finna hópinn á Facebook og á Instagram undir myllumerkinu #Laxness119