Birta Fróðadóttir kona febrúarmánaðar á Bókasafni Mosfellsbæjar

11/02 2015

Halldór við skrifborðið í vinnustofu sinni, skömmu eftir að Gljúfrasteinn var byggður.

Birta Fróðadóttir húsgagnasmiður og innanhússarkitekt er kona febrúarmánaðar á Bókasafni Mosfellsbæjar.

Birthe Brow Sørensen fæddist á Sjálandi í Danmörku 17. október 1919. Hún lést 7. ágúst 1975. Birta lauk námi í húsgagnasmíði 1942 og síðar þriggja ára námi í innanhússarkitektúr frá Skolen for indendørsarkitektur.

Birta Fróðadóttir var það nafn sem hún valdi þegar hún varð íslenskur ríkisborgari. Hún giftist Jóhanni Jónssyni 16. október 1943. Saman stofnuðu þau og starfræktu garðyrkjustöðina Dalsgarð í Mosfellsdalnum. Þau eignuðust átta börn.

Auður og Halldór fluttu að Gljúfrasteini um svipað leyti og Birta og Jóhann settust að í dalnum. Birta hannaði meðal annars skrifpúltið og skrifborðið sem stendur í vinnuherbergi skáldsins, valdi liti o.s.frv. eins og Auður átti síðar eftir að minnast:

„Vikum saman hittumst við nærri daglega. Við fórum til Karólínu vefkonu og Birta bjó í hendur henni áklæði, salúnsábreiður og gluggatjöld fyrir allt húsið, teiknaði og valdi húsgögn fyrir smiðina í Björk, valdi liti á veggina og útvegaði húshluti. Það var haldið reisugildi þar sem við vorum bara tvær kvenna og áður en varði var komið fullbúið hús á hólinn“ (Auður Sveinsdóttir, „Birta Fróðadóttir – minning,“ bls. 23).