Barn náttúrunnar í 100 ár

04/01 2019

Barn náttúrunnar 1919

Starfsfólk Gljúfrasteins óskar öllum sem heimsóttu safnið árið 2018 gleðilegs nýs árs.

Í ár verður þess minnst á Gljúfrasteini og víðar að 100 ár eru liðin frá því að Halldór Laxness sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu, Barn náttúrunnar.  Þá var hann aðeins 17 ára gamall. Bókin kom út í október árið 1919. Viðtökur gagnrýnenda voru nokkuð blendnar þó flestir virtust sammála um að Halldór ætti framtíðina fyrir sér.  Arnfinnur Jónsson skrifaði í Alþýðublaðið nokkrum vikum eftir útgáfu bókarinnar að þrátt fyrir galla verksins hljóti lesandinn ,,að dást að dugnaði og dirfsku unglingsins, og ég hygg, að vér megum vænta hins besta frá honum þegar honum vex aldur og viska.“ Arnfinnur lýkur greininni á þessum orðum: ,,Og hver veit nema að Halldór frá Laxnesi eigi eftir að verða óskabarn þjóðarinnar.“

„Dáið er alt án drauma;
og dapur heimurinn."
(11. kafli. Hulda.)