Bækur skáldsins hjá Braga bóksala og Gvendi dúllara

17/02 2012

Halldór Laxness í vinnustofu sinni á Gljúfrasteini.

Halldór Laxness skrifaði 62 rit á 68 árum. Ekki er ólíklegt að á flestum heimilum leynist Laxnessbók uppi í hillu, hjá sumum prýða bækur skáldsins jafnvel margar hillur. Það er því ekki furða að verk eftir skáldið berist til fornbókasala landsins annað slagið. Hjá Braga bóksala og Gvendi dúllara er hægt að fá ýmsar perlur skáldsins, sumar jafnvel áritaðar eða úr fyrstu prentun.

Það var Ásgeir Júlíusson (1915-1967) sem teiknaði bókamynstrið fræga sem einkennir verk skáldsins. Árið 1942 teiknaði hann bókamynstrið en það birtist fyrst á spjöldum og kili bókanna Vettvángur dagsins og Sjö töframenn. Mynstrið er notað á nokkrum bókum Halldórs á fimmta áratugnum, en eftir 1950 er þetta mynstur prentað á allar útgáfur Helgafells á verkum hans.