Alþjóðlegur dagur þýðenda í dag

30/09 2015

Halldór við skrifborðið í vinnustofu sinni, skömmu eftir að Gljúfrasteinn var byggður.

Þýðendur um allan heim halda upp á 30. september, sem kenndur er við heilagan Híerónýmus því það er alþjóðlegur dagur þýðenda og túlka. Að því tilefni fagnar Bandalag þýðenda og túlka með dagskrá í Hannesarholti.

Það vill oft gleymast að Halldór skrifaði ekki einungis fjölda bóka heldur þýddi hann líka erlend skáldverk. Þekktasta þýðing hans er án vafa Birtíngur eftir Voltaire, en sú þýðing þykir einkar snjöll.

Verk Halldórs sjálfs hafa komið út í meira en 500 útgáfum á yfir fjörutíu tungumálum og hafa þýðendur bóka hans gegnt lykilhlutverki í að bera hróður skáldsins erlendis. Á heimasíðu Gljúfrasteins er hægt að nálgast lista yfir allar þýðingar á bókum skáldsins sem eflaust halda áfram að ferðast um veröldina, lesendum til ánægju og yndisauka.