Afmælisdagur Auðar í dag

30/07 2015

Halldór, Auður, Sigríður og Guðný í vinnuherbergi skáldsins.

Í dag, 30. júlí, hefði Auður Sveinsdóttir náð 97 ára aldri en hún fæddist á Eyrabakka þann 30. júlí 1918. Foreldrar Auðar voru Halldóra Kristín Jónsdóttir og Sveinn Guðmundsson. Árið 1925 fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur þar sem Auður ólst upp ásamt systrum sínum, þeim Ásdísi og Fríðu.

Auður hóf störf á röntgendeild Landspítalans eftir gagnfræðipróf árið 1934 og starfaði þar allt til ársins 1947. Hún gegndi mörgum störfum í gegnum tíðina, bæði í atvinnulífinu og heima við, skrifaði í kvennatímarit á borð við Melkorku og Hug og hönd og lá ekki á skoðunum sínum. Fyrir margar sakir vísar greinin ,,Íslenzkir minjagripir" sem birtist í Melkorku árið 1950 til framtíðar en í henni kveður Auður fast að orði í gagnrýni sinni á þá minjagripagerð sem þá tíðkaðist. Hún hafði alla tíð mikinn áhuga á hannyrðum og sköpun eins og handavinna hennar sjálfrar ber fagurt vitni. Þekktasta hlutverk hennar nú á dögum er þó sennilega að vera eiginkona Halldórs Laxness og húsfreyja á Gljúfrasteini.

Auður og Halldór kynntust á Laugarvatni nokkrum vikum áður en heimstyrjöldin síðari skall á. Í göngutúr síðla ágústmánaðar réðust forlögin eins og Auður orðar það í bókinni Á Gljúfrasteini sem Edda  Andrésdóttir tók saman og kom út árið 1984.

Árið 2014 var haldin sýning um Auði á Gljúfrasteini. Sýningin byggði á niðurstöðum rannsóknar sem unnin var á Gljúfrasteini frá 2013-2014. Í rannsókninni var farið yfir bréfasafn Auðar, verk hennar og skrif um textíl og hannyrðir. Í fyrsta sinn var Auður miðpunktur á sérstakri sýningu þar sem sjá má brot af verkum hennar en hún vann alla tíð að sköpun í textíl; útsaumsverkum, prjóni o.s.frv. ásamt því að skrifa um hannyrðir, hönnun og handverk.

Hér má finna frekari umfjöllun um Auði, líf hennar og störf. Einnig má benda á fróðlegt viðtal við Auði eftir Fríðu Björk Ingvarsdóttur „Frjáls í mínu lífi“ sem birtist upphaflega í Lesbók Morgunblaðsins í apríl árið 2002.