Rundgang um Gljúfrasteinn

Gljúfrasteinn, hús Halldórs Kiljans og Auðar Sveinsdóttur Laxness, var reist í Mosfellsdal árið 1945. Halldór hafði valið því stað neðan við samnefndan stein í landareign Laxnessbæjarins, þar sem hann undi sér oft sem ungur drengur. Þaðan sér niður dalinn

Bjölluhnappurinn við dyrnar á Gljúfrasteini.

Efsti hluti klukkunnar frægu frá Brekku á Álftanesi sem sagði „ei-líbbð ei-líbbð“ í Brekkukotsannál. Árið 1916 skrifaði Halldór Laxness grein um klukkuna í Morgunblaðið og kemur þar fram að hún hafi komið til landsins „á öndverðum síðasta fjórðungi 18. aldar“. Hún gengur enn og slær með björtum fögrum hljóm. Með stiganum upp á efri hæðina hanga tvö málverk eftir Svavar Guðnason og eitt eftir norska málarann Weiderman. Myndina yfir dyrunum inn í eldhúsið segir Auður Halldór hafa „keypt í útlöndum“.

Í forstofunni á Gljúfrasteini er þetta málverk eftir Karl Kvaran. Einnig má sjá veggljós sem Sveinn Guðmundsson faðir Auðar Laxness smíðaði utan um gler sem hún útvegaði skömmu eftir að Gljúfrasteinn var byggður árið 1945.

Í forstofunni á Gljúfrasteini er málverk eftir Jóhannes Kjarval 1924. Málverkið átti að vera altaristafla í Rípurkirkju í Hólaprestakalli í Skagafjarðarprófastsdæmi. Altaristaflan var hins vegar aldrei sett upp því hún þótti klúr og ljót, ekki nógu biblíuleg. Myndin er af Jóhannesi skírara og Jesús krýpur við fætur hans. Myndin glataðist en komst svo til Ólafs bónda á Hellulandi í Skagafirði. Eftir hans dag hafði ekkja Ólafs samband símleiðis til Halldórs Laxness og bauð honum myndina fyrir peninga. Ólafur og Halldór höfðu verið kunningjar og kom Halldór stundum við hjá Ólafi ef hann var á ferð um norðurland. Skömmu síðar hringir ekkjan aftur í Halldór og segir að Birgir Kjaran hafi boðið hærri uppæð í myndina. Halldór bauð þá það sama og Birgir, fór norður og sótti myndina og hengdi upp í forstofunni á Gljúfrasteini. Síðar kom Kjarval í heimsókn á Gljúfrastein og setti þá stafina sína undir. Í leiðinni krotaði hann skegg á efri vör Jóhannesar skírara en Halldór stoppaði frekari endurbætur á myndinni. Rúmfjölin sem er fyrir ofan dyrnar er frá 1713 og kemur frá fjölskyldu Halldórs. Hún var í Laxnesi. Á henni er að finna tvö ljóð, eitt framan á og annað aftan á: Veittu mér drottinn, ég þig bið ( heldur ?) blessan heill hjálp og frið heiðursprýddri hringasól Guð sé þín hlífð og voldugt skjól. Gabbi enginn gjörvarann góðmótlega hver sem kann virði vel með sæmdarsið þó barndómlegt sé handbragðið. Sveinn Guðmundsson faðir Auðar smíðaði ,,látúnið” til þess að hægt væri að hengja fjölina upp. Hann smíðaði einnig látúnið á kistunni fyrir neðan Kjarvalsmyndina.

Stóri glugginn mót suðvestri varð strax blómagluggi en innréttingunum fyrir framan hann var breytt árið 1960, þegar langur sófi var settur þar og flygillinn færður í hornið. Sófinn hefur þrisvar verið yfirdekktur. Steinda glerverkið í endaglugganum er eftir Nínu Tryggvadóttur.

Við arininn í stofunni stendur „Eggið" eftir Arne Jacobsen en þar sat Halldór gjarnan. Myndin til vinstri, ofan við stólinn, er eftir Kristján Davíðsson. Í hinum stólnum er púði sem Auður gerði í París og kallaði Landaparís; með litunum ætlaði hún að fanga andrúm borgarinnar. Á arinhillunni rísa hæst tvö Afríkulíkneski sem Halldór og Auður keyptu af Kristjáni Davíðssyni en hann flutti þau heim með sér þegar hann kom úr námi í Bandaríkjunum. Þá er frönsk stytta, mynd af Ása-Þór, stytta sem Auður keypti á Indlandi og önnur grænlensk. Yst til hægri er mynd eftir Ásmund Sveinsson sem Auður keypti um 1940.

Halldóra Jónsdóttir, móðir Auðar, teiknaði og saumaði veggteppið eftir fyrirmynd á Þjóðminjasafni en ljósið fyrir ofan það smíðaði faðir Auðar, Sveinn Guðmundsson. Flygilinn, sem er af Steinway-gerð, keypti Halldór en áður var í stofunni flygill sem Ragnar í Smára lagði til. Á flyglinum er skúlptúr eftir Erling Jónsson.

Hér er horft úr stofunni og inn í borðstofuna. Stofan er klædd með viðarplötum en þetta mun hafa verið í fyrsta skipti sem slíkt var gert hér á landi. Veggmyndina til vinstri teiknaði Auður Laxness og saumaði. Formin klippti hún út úr steinbítsroði og saumaði á klæði. "Ég gerði þetta þegar Halldór fékk Nóbelinn," segir hún. "Hann var þá úti í tvo mánuði og ég var búin með myndina þegar hann kom heim." Fyrir neðan myndina eru kínverskur vasi og Búddastytta sem Auður keypti í Kína. "Ég keypti tvær svona styttur en önnur þeirra var tekin af mér, það mátti ekki flytja hana úr landi," segir hún. Yfir skenknum í borðstofunni hangir málverk eftir Svavar Guðnason. Til vinstri eru silfurkönnur, aðra gáfu vinnufélagar Auðar á Landspítalanum henni í brúðargjöf en hina keypti Halldór. Sögu silfurskálarinnar á miðjum skenk segir Auður sérkennilega. Þegar Halldór sigldi í fyrsta sinn utan eftir að heimsstyrjöldinni síðari lauk fór hann til Kaupmannahafnar. Þar hitti hann konu sem þekkti Jón Helgason prófessor, hún var frá einu Eystrasaltslandanna, ákafur aðdáandi Halldórs og vildi þýða verk eftir hann. Eftir að konan lést þá hafði lögfræðingur samband við Halldór og sagði konuna hafa ánafnað honum þessa skál í erfðaskrá sinni; Jón Helgason arfleiddi hún að ljósakrónu.

Við hlið skápsins í borðstofunni er samóvar sem rússneskur þýðandi Halldórs færði þeim að gjöf. Auður segist oft hafa notað hann. Á skápnum eru tveir vasar sem hún keypti í Kína. Myndin lengst til hægri er eftir Jóhannes Kjarval, máluð á viðarplötu, frummynd af konu með skuplu sem hann málaði síðan í saltfiskmyndina stóru í Landsbankanum. Hinar tvær myndirnar eru eftir Svavar Guðnason og Auður segir þá í miðið vera eftirlætismálverk sitt.

Fyrir ofan skenkinn í borðstofunni er eitt af mörgum málverkum Svavars Guðnasonar sem prýða Gljúfrastein. Verkið heitir “Leysing” og er frá 1950. Silfurskálin á miðjum skenknum á sér sérkennilega sögu. Auður segir svona frá henni: “Silfurskálin á miðjum skenknum er erfðagripur sem Halldór fékk frá konu úr Eystrasaltslöndunum sem hann kynntist í fyrstu ferð sinni til útlanda eftir stríð. Hún var á heilsuhæli vegna taugaveiklunar og hún vildi fá að þýða bækur hans á þýsku. Halldór fór á hælið til hennar og þar fór vel á með þeim og Halldór sem alltaf var svo bjartsýnn að hann bauð henni strax að hún gæti komið til Íslands og búið hjá okkur í alveg nýju húsi. Konan var svo glöð að hún tók sér ferð á hendur til Jóns Helgasonar sem hún hafði kynnst til að segja honum tíðindin. Þá lá á borðinu hjá Jóni sænskt tímarit og framaná því var mynd af húsi Halldórs, nýsmíðuðu og það var ekkert annað að sjá ekki stingandi strá, bara þessi húshlið, snjór og grjót. Konunni varð svo mikið um að sjá þetta að nokkrum dögum síðar fyrirfór hún sér. Í erfðaskrá hennar var þessi skál sem var merkt á báðum hliðum með skjaldarmerki ætluð Halldóri og forláta ljósakróna ætluð Jóni, þessa hluti fengu þeir í arf frá konu sem þeir höfðu lítillega kynnst. “ Myndina af Halldóri tók Jón Kaldal og fyrir framan hana er lítið listaverk eftir Erling Jósson

Við stigann þegar gengið er upp á efri hæðina hangir teppi saumað af Ásdísi Sveinsdóttur, systur Auðar, eftir söðuláklæði sem Guðný Klængsdóttir, amma Halldórs átti.

Víða um Gljúfrastein eru vegg- og loftljós sem faðir Auðar, Sveinn Guðmundsson, smíðaði úr smíðajárni. Auður segir að þegar þau Halldór voru að flytja í húsið, árið 1945, hafi svo fátt verið til í verslunum. Hún var að leita að ljósum en fann einungis ljósagler í einni verslun. Hún keypti þau öll og faðir hennar tók smíðina að sér.

Á gangi efri hæðar hússins eru bækur og myndverk. Hér er ljósmynd Ragnars Axelssonar, ljósmyndara Morgunblaðsins, af þeim hjónum Halldóri og Auði Laxness en hún var tekin í tilefni af 85 ára afmæli skáldsins og blaðið færði þeim hana innrammaða að gjöf. Fyrir neðan er mynd eftir Erró, um Halldór og verk hans. Til hægri er málverk eftir Kristján Davíðsson.

Svefnherbergi Auðar Laxness eins og það var á meðan hún bjó á Gljúfrasteini. Fyrir ofan rúmið eru verk eftir Svavar Guðnason og myndir af skyldmennum Auðar.

Í herbergi Auðar er mynd af þeim hjónum tekin við Nóbelsverðlaunaafhendinguna í Stokkhólmi. Fyrir neðan hana er mynd af móður Auðar, Halldóru Jónsdóttur. í hillunum eru bækur eftir Halldór.

Gegnt rúmi Halldórs hanga málverk Nínu Tryggvadóttur af ungri konu, skjal sem páfi færði Halldóri er hann kom til landsins, ljósmynd af Halldóri ungum, teikning sem hann gerði af Byron lávarði á unglingsárum og er eina teikningin sem varðveist hefur eftir hann frá þeim tíma og málverk Louisu Matthíasdóttur af Erlendi í Unuhúsi. Á bókahillunni eru fjölskyldumyndir, mynd af Halldóri og Auði í Þjóðleikhúsinu og höggmynd eftir Erling Jónsson.

Við hlið fataskápa í herbergi Halldórs eru þessar þrjár ljósmyndir. Efst mynd af skírnarathöfn sem Halldór var viðstaddur í klaustrinu í Lúxemburg, mynd af Erlendi í Unuhúsi og ljósmynd af þeim félögum og nöfnum, Halldóri Kolbeins og Halldóri Laxness.

Fyrir ofan púltið í vinnustofu Halldórs eru myndir af fólki sem var honum nákomið. Ein þessara mynda er af Jóhanni Jónssyni skáldi sem var góður vinur Halldórs.

Vinnuherbergi Halldórs er gegnt í svefnherbergi hans. Þaðan er fallegt útsýni yfir Mosfellsdalinn og heim að æskuheimili hans, Laxnesi. Í horninu ofan við bókaskápinn er málvek af stúlku eftir Nínu Tryggvadóttur. Einnig má sjá mynd af Halldóri ungum að árum og skjal frá páfanum sem hann sendi Halldóri í tilefni af níræðisafmæli hans.

Í vinnuherbergi Halldórs eru allar innréttingar upprunalegar, teiknaðar af Birtu Fróðadóttur, dönskum hönnuði sem var eiginkona Jóhanns Jónssonar, garðyrkjumanns í Mosfellsdal. Yfir púltinu eru myndir af fjölskyldumeðlimum og vinum og málverk Nínu Tryggvadóttur af Erlendi í Unuhúsi. Yfir skrifborðinu, sem Auður Laxness vann við og vélritaði á, er málverk eftir Svavar Guðnason. Í skjalaskápnum voru bréf Halldórs en Auður hefur afhent þau Landsbókasafni. Yfir skápnum er mynd eftir Jóhannes Kjarval.

Í bókahillunum í herbergi Auðar Laxness standa ýmsar myndir. Hér eru myndir af foreldrum hennar, Halldóru Jónsdóttur og Sveini Guðmundssyni. Þá er mynd af Halldóri nítján ára gömlum, tekin erlendis.

Stólinn í vinnuherbergi Halldórs fluttu þau Auður með sér að Gljúfrasteini. Í honum sat Halldór gjarnan og margar ljósmyndir voru teknar af honum í stólnum. Í hillunum eru útgáfur af bókum Halldórs, frumútgáfur og þýðingar. Púðann í stólnum gerði Ásdís Sveinsdóttir, systir Auðar.

Í vinnustofu Halldórs eru ýmsar bækur en starfsmenn bókasafnsins í Mosfellsbæ hafa flokkað þær allar. Málverkið heitir “Sumar” og keyptu þau Auður það á fyrstu sýningu Svavars Guðnasonar eftir að hann sneri heim frá Danmörku við lok heimsstyrjaldarinnar; fyrsta verkið sem hann seldi hér. Á hillunni eru ýmsar brúður og líkneski, sem kallað var þjóðin, flestar úr eigu dætra Halldórs og Auðar. Yst til hægri stendur mynd af Henrik Ibsen, norska leikskáldinu. Púðann á stólnum, neðst til vinstri, átti amma Halldórs, Guðný Klængsdóttir.

Danskar og austur-evrópskar þýðingar sem búið er að flokka, ásamt öllum öðrum bókum í vinnustofu skáldsins.